Wednesday, July 11, 2007

Drulluskelda 2007

Ég sá fréttamann frá Ríkissjónvarpinu standa með hljóðnemann sinn á tónleikasvæðinu þegar rigningin var sem mest og geng þess vegna út frá því að fréttir af blautri Hróarskelduhátíð hafi borist heim á Frón.

Á sunnudeginum sem tjaldsvæðið opnaði þurfti ég að vinna og fékk þess vegna stelpurnar sem ég ætlaði að vera í tjaldbúðum með til að tjalda mínu tjaldi. Ég fékk skilaboð inn á talhólfið mitt um að þær hefðu náð frábærum stað og það sem eftir var af vaktinni sat brosið fast. Brosið hvarf þó eins og dögg fyrir sólu á leiðinni heim úr vinnunni. Ég fékk að vita að búið væri að reka okkur og eigendur 200 annarra tjalda af svæðinu sem við höfðum tjaldað á af öryggisástæðum. Klukkan var þá orðin 12 á hádegi en það þýddi, þrátt fyrir mikla leit, að ómögulegt var að finna gott stæði fyrir tjaldbúðirnar. Þetta endaði þess vegna með að við þurftum að splitta okkur, sumar bjuggu á austur- og aðrar á vestursvæðinu. Bömmer...

...en fall er fararheill - eins og sagði einhversstaðar.

Rafmagnslagersvinnan var jafnvel enn betri í ár en síðasta ár. Vaktirnar enduðu oftast nær í bjórdrykkju og eiginlega var skúrinn okkar annað heimili, okkar þurra og hlýja heimili og ísskápurinn með kalda ókeypis bjórnum okkar besti vinur. Limbókeppnin með rafvirkjunum er líka eitthvað sem seint gleymist og DJ útvarpssappari stóð fyrir sínu. Eftir vikuna breyttum við nafninu á skúrnum úr því að vera EL-lageret í ad vera ØL-lageret - það átti svo miklu betur við.

Veðurspáin sem ég hafði óttast svo mikið stóðst því miður - og vel það. Tölurnar eftirá segja að rignt hafi yfir 100mm en síðasta metregnár rigndi um 47mm.
Ég svaf vel í tjaldinu mínu í þrjár nætur en þegar komið var að fjórðu nóttinni stóð tjaldið mitt og Lene í miðri tjörn.
Björgunaraðgerðir hófust til að bjarga fötum og öðru, en allt var orðið rakt þannig að skottúr til Kaupmannahafnar var nauðsyn. Það sem eftir var af hátíðinni svaf ég í hlöðu inni á starfsmannasvæðinu. Það er gott að eiga lítinn bróður sem sér um systur sínar og það er gott að vera með aðgang að starfsmannasvæðinu.

Já og svo fór ég víst líka á nokkra tónleika...

Analogik tónleikarnir voru einir af fyrstu tónleikunum á Roskilde í ár. Það var þó ekki hægt að sjá það á fólkinu því það hagaði sér eins og vel upphitaður mannskari. Stemningin var unaðsleg og gleðin í algleymingi. Ekki slæmt að byrja hátíðina á dúndurpartýi. Strákarnir í Analogik fá fullt hús hjá mér sem partý hljómsveit - þeir spiluðu líka á Krabbesholm ellevstævne og þar var stemningin ekki síðri. Fór að finna fyrir harmonikkusöknuði þarna.

Arcade fire tónleikarnir voru búnir að vera tilhlökkunarefni í fleiri mánuði. Eftir að tónleikunum hér í Kaupmannahöfn var aflýst urðu væntingarnar til Roskilde tónleikanna tvöfalt meiri. Ég hef samt ekki ekki ennþá alveg getað gert uppvið mig hvort tónleikarnir stóðu undir væntingum. Tónleikarnir byrjuðu vel og enduðu stórkostlega, en það kom einhver smá lægð um miðbikið. Lægðin var svo sem ekki djúp, ca. tvö lög sem voru svona la-la og hljóðið hefði getað verið betra. Góðir tónleikar...ég ætti ekki að kvarta.

Björk hélt tónleika á Orange senunni í grenjandi rigningu. Guli regnjakkinn minn reyndi allt hvað hann gat en þrátt fyrir baráttuna var ég blaut og köld eftir tónleikana. Kuldinn og votviðrið skiptu samt engu máli því að ég og allir sem í kringum mig stóðu gleymdum öllu um rigningu og gráðviðri þegar bjarta og orkuríka rödd Bjarkar ómaði. Það fór ekki á milli mála að berfætta sjarmatröllið hafði prófað þetta áður! Tónleikarnir voru ótrúlega massív og flott heild þrátt fyrir að blandað væri saman gömlu og nýju efni.

Booka shade. Þvílík stemming og stuð! Eftir þessa tónleika var ég ekki blaut af rigningu heldur svita - held að það segi það sem segja þarf.

Whitest boy alive
. Drengirnir fengu yfirdrull í Roskilde blaðinu - sem ég skil ekki!?! Er ekki viss um að gagnrýnandinn hafi verið á sömu tónleikum og ég, því þeir tónleikar sem ég var á voru szhnilld. Erland Øye var auðvitað augnayndi eins og fyrri daginn og eiginlega var það afþreying útaf fyrir sig að horfa á allar slefandi stelpurnar í tjaldinu.

Flaming Lips. Það fer ekkert milli mála að Wayne Coyne hefur notað einhver "gleðiefni" í gegum tíðina, maðurinn er steiktur og talar steypu. Vinkonu minni finnst hann sexy - hann er það kannski á einhvern undarlegan hátt. Tónleikarnir í Tivoli koncertsal voru betri, en þessir voru fínir og það rigndi ekki meðan á þeim stóð. Karlarnir eru þrælgóðir í skemmtanabransanum og þeir vita hvernig á að ná stemmingunni upp. Blöðrur, sprengjur, dansandi geimverur og jólasveinar, fjöldasöngur o.s.frv. Mér finnst alltaf jafn gaman að syngja með Yoshimi Battles the Pink Robots - og ég söng eins hátt og ég gat.

Beirut. Hér fór ég fyrir alvöru að finna fyrir harmonikkusöknuðinum, svo mikið að ég er búin að fara inn á Den Blå Avis og leyta að harmonikkum til sölu. Þetta er flott band og tónlistargleðin og hæfileikarnir skína hvarvetna. Ég var ekki vöknuð almennilega þegar tónleikarnir hófust, en þegar þeim var lokið var ég svo sannarlega vöknuð og klár í daginn. Held að þetta hafi verið besta 'vakna-móment' sem ég hef átt.

Taxi Taxi! Sænskar 17 ára tvíburasystur sem eru fallegri en orð fá lýst (x 2!), feimnar á sjarmerandi mátann og með ótrúlega fallegar englaraddir. Held að það sé vert að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Justice. Hefði ekki getað hugsað mér betri máta að enda þessa festival á - dansaði frá mér allt vit og daðraði smá á meðan á því stóð.
Apafestin sem fylgdi á eftir með leyfunum af festivalgestunum var stórkostleg. Hef sjaldan séð nokkuð fyndnara en 200 manns sem allt í einu finnst þau vera bestu stomparar í heimi. Garðstólar voru rifnir í sundur og rörin notuð sem "trommu"kjuðar og allt sem á vegi varð var notað sem ásláttarhljóðfæri. Ég mun alltaf vera á Roskilde fram að mánudeginum eftir þessa upplifun!


CSS, The National, Beasty boys, Basement Jaxx, Band Ane, Bonde de Role, Djuma Soundsystem og Timbuktu voru allt fantalega góðir tónleikar sem ég sá líka. Núna er ég bara þreytt og nenni ekki að skrifa meira.

Ég er þó með eina tilkynningu: Bleiku stígvélin mín lifðu Hróarskeldu ekki af. Þegar leðjan var farin að vella inn um lítið gat á hægri fæti fjárfesti ég í nýjum stíbbum, þau eru svört með gullglimmeri. Megi þau bleiku hvíla í friði.

Það stóð einhversstaðar skrifað með graffity "Hvis du tuder over mudder er du en luder" - ég er engin lúða og skemmti mér því DRULLUvel á Hróarskeldu í ár!

Koss, knús, yfir og út
Hulda
p.s. lesið e.t.v. um Sólarskelduna 2006 hér.
p.p.s. mánuður í heimkomu...