Sunday, January 27, 2008

endurnýtanlegt email

Þar sem ég er agalega léleg i blogginu ákvað ég að nýta email sem ég skrifaði um daginn og skella því hingað inn líka. Reyndar fengu líklega flestir sem lesa þetta blogg emailið, en....

-----------

Heilir og sælir skunkarnir mínir.

Jæja kannski tími til kominn að senda frá sér smá lífsmark.

21 dagur liðinn frá því að ég lenti á Kastrup - dagar sem hafa verið
viðburðaríkir og liðið hratt.
Ég er hress og kát sem aldrei fyrr og nýt þess að hjóla um stræti
Kaupmannahafnar með eplakinnar og vind í hárinu.
Praktíkin er búin að fara mjög vel af stað. Dansk Arkitektur Center er
afbragðs praktíkstaður, og eftir að hafa talað við nokkra
bekkjarfélaga held ég svei mér þá að ég sé með þeim heppnari í hópnum.
Ég er komin undir verndarvænginn hjá Lonnie sem er ung, hörkudugleg og
klár stelpa sem er "communication"-ráðgjafi fyrir sýningateymið á
DAC...og hún er alveg á því að ég eigi að fá max út úr þessum þremur
mánuðum.
Ég verð með í skipulagningu og alls konar vinnu fyrir tvær spennandi
sýningar sem verða í mars og apríl. Fullt af krefjandi verkefnum sem
ég mun læra helling af. Svo verð ég líka með í að sjá um
arkitektúr-hlaup þar sem hlaupið verður framhjá, í gegnum og upp og
niður af fullt af flottum arkitektúr og svo bíða bjór og pylsur við
markið (míííí læk). Hef aldrei farið á eins marga fundi um ævina eins
og undanfarnar þrjár vikur...og þó er ég engin fundarjómfrú (tók þær
víst nokkrar góðar fundarsyrpurnar í Menntaskólanum - skemmtilegustu
fundirnir þar voru klárlega í útgáfunefnd fyrir Sögu Menntaskólans á
Akureyri fjórða bindi!! Ég hafði nefnilega svo óstjórnlega mikið að
til málanna að leggja þar haha). En já allavega afbragðs praktík.

Og hér koma stuttu sögurnar:

1) Það er búið að vera unaðslegt að hafa Önnu og Jón svona nálægt
sér...en ég og Johnny boy erum víst að fara að missa stóru systur
okkur út í hinn stóra heim. Anna er að fara í praktík til San
Francisco á mánudaginn. Mun sakna hennar mikið og er líka ógeðslega
öfundsjúk yfir því að hún sé að fara út í ævintýraleit - mig langar
líka! Ég er samt búin að ákveða, að eftir praktíkina og fyrir
bachelor-skrifin ætla ég að skella mér til San Fran og njóta þess að
vera til. Er strax komin með fiðring í tærnar við hliðina á stórutánum
(váá ég hafði aldrei pælt í því áður en við erum með stóru tá, litlu
tá og svo hvað?? eigum við engin nöfn á hinar tærnar?).

2) Mér líður annars eins og ég sé komin á hinn almenna kjötmarkað.
Eftir að hafa verið í ræktinni í Baðhúsinu bara umkringd konum líðiur
mér fáránlega innan um alla pumpuðu gaurana í hlýrabolunum. Þarf ég að
segja meira en 'tækin fyrir innan- og utanlærisvöðvana'....

3) Ég var að passa tvö íslensk börn á laugardaginn. Ég var mitt í
hárgreiðsluleik við stelpuna, sem er 6 ára þegar hún spyr mig: "af
hverju ert þú með svona andlit, af hverju ertu ekki með svona eins og
ég?" Ég spurði hana hvernig andlitið mitt væri og þá sagði hún "þú ert
með svona mjótt andlit" ég hló innra með mér og hóf svo einhverja
pedagógíska ræðu um að allir væru fæddir misjafnir og bla bla. En
punchline sögunnar er sem sagt að það er ágætt að vera það langleitur
í framan að 6 ára börn fari að spyrja mann af hverju maður sé svona
"öðruvísi".

Jæja gott í bili....og elskurnar endilega skellið í nokkrar línur handa mér;)

Ykkar 4ever and ever and ever,
Hulda

-------------------

Friday, January 04, 2008

Verðlaun veitt fyrir árið 2008

Með slefið út á kinn vaknaði ég í nótt og vissi ekkert hvaðan á mig stóð veðrið enda ekki vön að vakna svona um miðja nótt (klukkan var reyndar bara 01 en þar sem ég er orðin vinnandi kona er ég að reyna að koma skikkan á svefnmálin. Lúr undir borði í vinnunni gengur víst ekki í þetta skiptið haha). Eftir að hafa kíkt á klukkuna áttaði ég mig á því að ég hafði vaknað við stunur og öskur nágranna minna. Nágranna sem augljóslega stunda MJÖG hávært kynlíf! Aðrar eins stunur og öskur hef ég ekki heyrt og ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera af mér næstu tvær klukkustundirnar. Eyrnatappar voru víðsfjarri og koddinn reyndist ekki nógu hljóðeinangrandi því miður. Þetta þýddi auðvitað bara eitt, ég mætti píreygð af þreytu í vinnuna í morgun, á öðrum vinnudegi.
Var búin að sjá rúmið mitt í hyllingum í dag og hlakkaði mikið til að leggjast undir sæng og hvíla mig aðeins, en þegar heim var komið haldiði ekki að elskulega parið hafi verið í gangi með heimaleikfimina sína aftur. Hún fær hér með öskur-og stunuverðlaun ársins 2008, þó svo að árið sé varla byrjað. Hún á þau bara svo fyllilega skilið.

Annars allt gott. Skrifa meira um það þegar er eitthvað krassandi að frétta.

Knús Hulda