Monday, April 28, 2008

Ég ákvad ad Googla mig...

Bachelorskrif fá mann svo sannarlega til að gera ýmislegt óþarflegt, tímafrekt og óviturlegt, en sumt af þessu óþarflega, tímafreka og óviturlega er samt svo nauðsynlegt og kærkomið þegar maður er við það að missa geðheilsuna.

Í gær ákvað ég að googla sjálfa mig, sem líklega gæti talist eilítið óviturlegt og jafnvel óþarflegt, en úr þessari litlu google leit uppskar ég þó bros á vör. Efst á blaði stóð "Hulda Hallgrímsdóttir - Upplýsingar úr afrekaskrá ..." ég þurfti auðvitað ekki að smella áfram, enda óþarfi að sjá upptalningu á öllum mínum afrekum, þau eru það kyrfilega fest í minni mitt.

Nokkrum linkum neðar stóð "Maraþonskrá FM" - ég þurfti auðvitað heldur ekki að smella áfram, enda óþarfi að sjá upptalningu á öllum þeim maraþonhlaupum sem ég hef tekið þátt í, þau eru það kyrfilega fest í minni mitt.

Nokkrum linkum neðar kemst maður inná MA-vefinn þar sem þessi mynd meðal annars bíður eftir manni:

Það var hér sem brosið fyrst kom inn, því hvað er ánægjulegra en þegar maður er með ljótuna á einstaklega háu stigi, situr í joggingfötunum og er maskaralaus að sjá menntaskólamynd af sér þar sem maður hreinlega slær úldnunni við. Að mæta fersk í skólamyndatöku er allavega ekki á afrekaskránni...

bomm bomm,
Hulda

Tuesday, April 22, 2008

Skokkedískokk

tómt blað, tóm Hulda.

Heil vika þar sem lítið hefur skriðið fram með verkefnið gerir það að verkum að ég sit hér og veit satt best að segja ekkert í minn haus. Ákvað að fara út að skokka áðan því ég sá að ég var ekki að gera neinum greiða við að sitja og góna á tölvuna. Þess má geta að ég var að vígja nýju svörtu hlaupabuxurnar mínar, var í fínu svörtu skónum sem ég fékk í jólagjöf, í svörtum sokkum, auk þess sem ég fór í hvíta hlaupabolinn og hvítu hlaupapeysuna, svo setti ég svörtu iPod-haldarateyjuna á upphandlegginn og skellti hvíta iPodinum í - auk þess er ég veeeel ljóshærð eftir síðustu aflitunarmeðferð og heltönnuð eftir San Fran og blíðviðri undanfarinna daga. Jahhh ef ég ældi ekki bara smá uppí mig þegar ég sá þessa rosa sporty gellu sem mætti mér í speglinum - éggetsvosvariða (sagt á innsoginu). Næst held ég að það verði gamlar KA stuttbuxur og kvennahlaupsbolur frá því árið '94...

Saturday, April 19, 2008

SAN FRANDISCO



(bloggið er sett inn nokkrum dögum of seint)

Hér sit ég og er í skýjunum í bókstaflegri merkingu. Er í flugvél á leiðinni til Parísar þar sem ég millilendi og tek vél áfram til Kaupmannahafnar. Eftir 10 daga afslöppun og hreina skemmtun finn ég hvernig stresshnúturinn stækkar í maganum, heima bíða bachelorskrifin sem verða líf mitt næstu 6 vikur.

En hvað um það, aftur að ferðinni. San Francisco er ótrúleg borg og ég skil vel að Önnu líði vel þar. Borgin er lifandi og skemmtileg, hún er falleg og fjölbreytileg og uppfull af góðu og jákvæðu fólki. 10 dagar líða auðvitað alltof hratt, en samt þegar ég lít á myndirnar í myndavélinni finnst mér óralangt síðan fyrsta mynd ferðarinnar var tekin – einhvern veginn náðum ég og Anna að gera alveg helling. Ferðin er heldur betur vel ”dokumenteruð” en myndirnar og videoin munu birtast á Facebook á næstu dögum.

Vinir Önnu sem ég hitti og allir þeir sem ég náði að hafa samskipti við voru yndislegir. Borgin laðar að sér alllskonar fólk, sem gerir að mannflóran er mjög litrík og fólk virkar einhvern vegin opnara fyrir þeim sem eru ”öðruvísi”. Í gegnum sambýling Önnu, Jamie, kynntist ég til dæmis fullt af fólki sem býr í vöruskemmu og lifir lífi sem er svo frábrugðið mínu eigin, en samt svo ótrúlega spennandi að fá innsýn inn í. Hjá þessum krökkum vaxa peningarnir svo sannarlega ekki á trjánum. Þau búa í vöruskemmunni Flowershop og borga enga húsaleigu, þau eru búin að búa til system sem gerir þeim kleift að nota regnvatn og þvottavélavatn til að sturta niður í klósettið með, nær engin þeirra hefur verið í skóla af neinu ráði og fæst þeirra eru í vinnum sem gætu kallast þessi týpísku 9-17. Þau eru upp til hópa mjög listræn og gædd allskonar mismunandir hæfileikum; ein stelpan hefur mikinn áhuga á öllu sem viðkemur rafmagni og er einskonar sjálflærður rafirki, einn strákurinn er ’hjólamaðurinn’, annar er góður dj, nokkrir eru bílaviðgerðamennirnir og sjá m.a. um viðgerðir á rútunum sem þau eiga osfrv. osfrv. Þau lifa einskonar bóhemlífi eru stanslaust að bardúsa og betrumbæta vöruskemmuna, gera upp gamla bíla, taka gömul og ónýt hjól í sundur og búa til ný og fín hjól sem hægt er að selja...
Það víkkar sjóndeildahringinn að hitta svona frábæra krakka sem lifa svo frábrugðu lífi frá mínu. Orðið lífsgæði fær einhvern vegin aðra merkingu. Fyrir mér snúast lífsgæði um öryggi, ferðalög, góðan mat, kósí heimili osfrv. – allt eitthvað sem Flowershop-krakkarnir hafa ekki kost á dags daglega. Þau voru samt öll svo jákvæð, glöð og gjafmild og veittu mér á einhvern hátt mikinn innblástur.











Ferðin til San Francisco var eitt ævintýri frá byrjun til enda. Roadtrip okkar systra var eiturmagnað og “Son of a preacher man” varð roadtriplagið og líklega tekið um 20 sinnum, Dolores park var unaður, double dutching var gaman, SF MOMA kynnti mig fyrir Friedlander sem er flottur ljósmyndari, ég keypti unaðsskó – fallegri en allt sem fallegt er, sólin skein sem aldrei fyrr, vinir Önnu danskir, franskir, bandarískir og allt þar á milli voru frábærir, það var gaman að sjá San Francisco “þjóðbúninginn” aka. tattú sem helst eiga að fylla eins mikið af hörundinu og hægt er, fegurð borgarinnar er ótrúleg og gaman að sjá andstæðurnar náttúra – stórborg, háhýsi – gettó svona nálægt hvorri annarri. Já þessi upptalning er bara lítið brot af því sem mér fannst frábært við að koma til San Francisco og ég skora hér með á alla að setja ferð þangað inn í framtíðaráform sín.

Lifið heil kæru vinir,
Hulda