Wednesday, April 25, 2007

Óslökkvandi þorsti...


Undanfarna daga hef ég verið haldin einhverjum óstöðvandi þorsta. Klósettferðirnar á bókasafni skólans voru ófáar, enda innbyrgði ég fleiri lítra af vatni á dag. Einhvern veginn virtist þorstinn samt aldrei hverfa - alveg óþolandi. Það var ekki fyrr en ég kom heim í gærkvöldi og leit inn í ísskápinn að ég áttaði mig á hvers vegna. Þorsti minn var ekki vatnsþorsti heldur bjórþorsti! Tvær djammlausar helgar í röð kalla sem sagt fram síðbúinn "cold turkey". Ég ákvað þess vegna að opna einn Carlsberg sem beið eftir mér ískaldur og góður og ahhhhh þvílíkan unað hef ég varla upplifað.

Á föstudaginn eftir prófið ætla ég svo að slökkva á þorstanum í eitt skipti fyrir öll.

Thursday, April 19, 2007

Dagatalið segir að sumarið sé komið...

...en þegar ég lít út um gluggann sé ég gráma, hvassviðri og rigningu.
Man ekki betur en að ég hafi um síðustu helgi setið á teppi á grasinu, berfætt, með sólgleraugu að drekka kælandi gosdrykk.

Veðrið síðustu vikur hefur líka verið of gott til að vera satt. Það versta við það þegar ég fæ svona snemmbúinn 'appertizer' á sumarveðrið þá skipti ég í huganum yfir í sumargírinn og fer út í nælonsokkum og á peysunni. Þetta hefur gert það að verkum að sultardropar eru aðal áhyggjuefni mitt þegar ég sit hérna á bókasafninu í skólanum. Enn eina ferðina neyðist ég til að gera tilraun til að yfirstíga feimni mína þegar kemur að snýtingum á almannafæri.

Tuesday, April 17, 2007

Ég segi svo mikið af góðum sögum...hafiði tekið eftir því?

Ég er örþreytt eftir langan skóladag og jógatíma og ætla þess vegna að láta kvöldmatinn samanstanda af nestisleyfum sem eru búnar að liggja í töskunni minni frá því klukkan hálf átta í morgun. 13 tímar í yfir 20 gráðum er það eitthvað?

Mmmm þurr gulrót, 1/5 þurr gúrka og þurr rúbrauðssamloka með skinku og osti.

Reyndar var lúxus á mér í hádeginu sem var ástæðan fyrir því að ég átti afgangs nesti. Mér var nefnilega boðið út að borða af Birgitte, sem ég var au-pair hjá hérna í den, þannig að í rauninni borðaði ég kvöldmatinn í hádeginu og hádegismatinn er ég að snæða í þessum skrifuðu.

Bon app...mín kæru

Sunday, April 15, 2007

80's vs. 90's

Héðan er allt gott. Sólgott. Er með rauðar eplakinnar og var berfætt í skónum í gær...stundum er lífið bara ljúft.

Berlín var góð sem alltaf. Reyndar var kortið ekki straujað alveg jafn oft og ætlunin var - keypti mér voða lítið. Ég hugsa að Danirnir hafi verið búnir að tæma allar 'genbrug' um páskana því það eina sem var eftir voru krumpusundbolir, útvíðar buxur og nælonskyrtur með kraga.

Einhvern tímann lét ég hafa eftir mér að 80's tískan hefði verið hræðilegasta tíska allra tíma - ég hef ákveðið að draga þessi ummæli mín tilbaka og breyta áratugnum í 90. Ímyndið ykkur eftirfarandi stelpu. Skór: Buffalo með extra breiðum botni. Buxur: Svartar mittisbuxur úr teygjuefni, útvíðar. Bolur: Magabolur sem á stendur "I'm sexy" skreytt með semelíusteinum. Úr: G-shock. Málning: Hvítt og glossss....já eða svona natural litir með brúnum augnskugga og vínrauðum varalit. Flott??

...reyndar verð ég að viðurkenna að mér finnst Kelly (90210) buxur alveg blíva...elska hvernig rassin verður 1 meter á lengd. Ég elska það - þetta er ekki kaldhæðni. Stundum er erfitt að vera kaldhæðin að eðlisfari og reyna að skrifa eitthvað sem ekki á að vera kaldhæðið. Frakkar þurfa líklega ekki að hafa áhyggjur af þessu, enda með eindæmum ókaldhæðnir. Góð saga.

En önnur góð saga er að ég eldaði mitt fyrsta páskalæri á páskadag. Klapp á öxlina.

Ætla að fara að lesa - enda komin í upplestrarfrí. Fer í munnlegt próf úr tveggja anna námsefni í áfanganum Aðferðarfræði vísinda (Videnskabsteori og metode) þann 27. Smá kvíðahnútur í maganum - en það góða er að ég hef gaman af því að lesa um alla gömlu góðu kallana Kant, Bourdieu, Marx, Popper o.s.frv.

Ást yfir og út
Hulda

Wednesday, April 04, 2007

Stund milli stríða - bloggpása milli "positivisme" og "kritisk rationalisme"

”Hulda ætlaru ekki að fara að blogga” heyrðist í Önnu í morgun. Henni fannst liðið of langt síðan ég bloggaði síðast, auk þess fór yfirskriftin ”Andi með rass í bala” afskaplega í taugarnar á henni. Gæti ekki verið meira sammála henni...

Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa út smásögusafnið ”Hjólasögur frá Köben”.
Veit ekki hvort þið munið eftir öllum hjólasögunum sem birst hafa á þessu bloggi, en þær eru orðnar all margar – og ég er enn að safna í sarpinn.
Hjólið mitt sat fast í 2 gír um daginn. 2. gír er mjög léttur gír og Danmörk er mjög flatt land. Þegar ég var að taka af stað á ljósum hentaði gírinn rosa vel, en annars voru hjólatúrarnir bara eins og villtir spinning tímar. Fólki virtist samt líka vel við mig svona – sá allavega nokkra glotta útí annað þegar ég hjólaði fram hjá. Skilekkiakkuru!

Þegar ég var orðin leið á spinningástandinu kíkti ég við hjá hjólasmiðnum í götunni. Hann tjáði mér að hjólið mitt ætti heima á haugunum (ha í alvöru á ryðhaugurinn minn heima á ruslahaugunum!) og að það myndi ekki borga sig að gera við það. Þegar ég hjólaði frá honum gerðist svo undur og kraftaverk. Hjólið hafði greinilega tekið þessu sem móðgun og ákvað að festast í þyngsta gírnum í staðinn. Já herrar mínir og frúr það er sko bara annað hvort eða hjá miss Roxy. Spinningástandið ríður sem sagt ennþá rækjum...að taka af stað á ljósum er vandamálið núna.

Keðjan á miss Roxy finnst hún heldur ekki eiga alveg heima þar sem hún á að vera. Olíuputtar eru þess vegna nær orðnir hluti af mér. Hvað segiði er nýtt hjól málið?

Úr einu í annað...
Man ekki hvort ég var búin að segja ykkur frá thai-stelpu-afmælis-matarboðinu sem ég hélt um þar síðustu helgi. Er búin að vera á thai matarnámskeiði og ákvað að sína snilli mína og hafa margréttað thai matarboð. Ég bauð 12 stelpum sem áttu að koma klukkan 19 á laugardegi. Það var mikið að gera í skólanum vikuna áður, þannig að frítíminn fór í að skipuleggja matseldina og versla galangarót, svart chilly pasta, sítrónugras og þar frameftir götunum. Ísskápurinn hjá okkur hefur aldrei verið svona fullur.


Á föstudeginum setti ég kjúkling og nautakjöt í marineringu og undirbjó það sem hægt var. Laugardagurinn fór að einhverju leyti í tiltekt og annað stúss og um 16 leytið ákvaðum ég og Anna að skella okkur út í búð og kaupa það síðasta sem vantaði...aðallega vín. Anna skellir hurðinni á eftir sér og svo kemur einhvað skrítið bros á hana – ég spyr hana af hverju hún sé að glotta svona og þá spyr hún mig tilbaka ”ertu með húslykla?”....aaaaaaaaaaaaaaaaa ég held að ég hafi sjaldan á ævi minni orðið svona stressuð. Nóbb engir lyklar...ENGIR LYKLAR og stelpurnar væntanlegar. Ég hefði verið til í að læsa mig úti alla aðra daga en þennan – þetta var of týpískt ég.
Þetta reddaðist samt allt saman – en í staðinn urðum við systur 7000 kr. fátækari. Held að maður gæti verið með ágætis tímakaup sem lásasmiður!
Vel heppnað matarboð varð þetta þó...





Jæja bakk tú biss – læra, læra, læra.

Hulda