Wednesday, January 31, 2007

Suma daga lifi ég hátt aðra daga lifi ég ekki (eða kannski smá).

Ef ég lifði alltaf hátt, væri dæmið svona. Of mikið + of mikið = brjálaður bankaráðgjafi
Ef ég lifði alltaf lágt, væri dæmið svona. Of lítið + of lítið = þunglynd Hulda

Ég fer ekki gullna milliveginn heldur skapa hann við að setja dæmið upp og láta útkomuna vera einhversstaðar þarna á milli.
Ætli það sé ekki svona, í mínu tilfelli, sem hinn gullni meðalvegur skapast:
Of mikið + of lítið = Hulda í ágætu sálrænu jafnvægi og bankareikningur sem hefur það OK. Ef maður lifði alltaf einhversstaðar þarna á milli væri lífið þá ekki of leiðinlegt?

Ég lifði hátt í gær. Las til klukkan tvö, en fór svo að hitta Selmu. Við byrjuðum á því að fara á loppumarkað (keypti mér járnpott), fórum svo á kaffihús, skelltum okkur svo inní bæ í búðir (kortið var auðvitað straujað) og enduðum svo á kaffihúsí aftur þar sem við borðuðum dýrindis samlokur. Ég lét reyndar ekki staðar numið þarna heldur skellti mér í bíó, svona til að setja punktinn yfir iið. Sá þýska mynd sem heitir Das Leben der Anderen. Ótrúleg mynd, hana verðið þið að sjá!

Annað dæmi um öfgakenndan lífsmáta minn er að ég þarf að taka til annan hvern dag. Held að það sé einhver fullnægja fólgin í því að sjá herbergið komast í samt horf aftur. Að viðhalda því fínu reynist mér allavega lífsins ómögulegt. Var að taka til áðan og sit hérna núna við kertaljós og hlusta á Explosions in the sky....mmm.

Talandi um mmmm....ég eldaði mér áðan. Hélt reyndar að ég væri að elda fyrir okkur báðar systurnar, en Anna þurfti að vinna yfirvinnu. Í 2 vikur var ég búin að láta mig dreyma um grískar kjötbollur, kartöflur og tzatziki og í kvöld lét ég verða að því. Nennti ekki að borða ein og skellti þess vegna einum Desperate Housewives, svo fann ég einn jólabjór inní ísskáp og úr varð úrvals kvöldmáltíð með úrvals afþreyingu.

Jæja, ætla að fara að skrifa ömmu bréf...

Hulda skapulda.

Monday, January 29, 2007

júúbbííí




Sólin skín og ég ætla að hjóla í vinnuna....með sólgleraugu




Ætla að hafa einhverja djolly gúd mjúsík í eyrunum og skunda af stað yfir hóla og hæðir.




Ótrúlegt hvað allt verður betra og skemmtilegra þegar sólin lætur sjá sig, vetrarsól er gleðisól...hipp hipp.
Hulda









Saturday, January 27, 2007

Bitur jússa í bómullarnáttfötunum á endorfín trippi

Anna og Sigurd liggja í herberginu við hliðina og flétta fingrum og horfa á Rocky .....ég var að koma heim úr vinnunni og er ógeðslega sveitt eftir klukkutíma hjólatúr í slabbi. Ég er í endorfín trans núna þannig að í augnablikinu er biturleikinn deyfður. Þið vitið að þegar maður er ástfanginn þá pródúserar líkaminn líka endorfín. (Þessi staðreynd var í boði Fróðleikshorns Huldu).

Annars er þetta helst í fréttum:

Ég þvoði fjórar vélar í gær......
....góð saga!!

Ég var að vinna áðan......
....góð saga!!

Ég er að fara að læra á morgun.....
....góð saga!!

Ég þarf að fara að skrifa ömmu bréf.....
....góð saga!!!

Líf mitt er ein góð saga....svona ykkur að segja.


Þessi helgi ákvað ég að hafa DJAMMLAUSA HELGI!!! Halelúja! Fyrsta sjóleiðis í langan langan tíma. Megi þær verða fleiri á þessari önn, en þeirri síðustu!

Það er eitthvað við svona djammlausar helgar – var alveg búin að gleyma hvað það er notalegt að sofa aðeins frameftir án þess að ástæðan sé að áfengismagnið í blóðinu sé of mikið til að maður geti farið á fætur. Bómullar náttföt og ullarsokkar, morgunmatur fyrir hádegi og tími til að lesa skólabækurnar...geysp...ætla í rúmið.

Góða nótt.

Hulda – who used to have the titel ’partyfeeder’ but desided to change it to ’old and grumpy’.

p.s. Hulda - sem er svöl og skrifar á ensku

p.p.s. Hulda - sem vonar að hún fari að skrifa um eitthvað skemmtilegra en djammlausar helgar og hversdagslíf.

Svo hef ég bara eitt að segja að lokum - lengi lifi blóðnasir!

Thursday, January 25, 2007

Fer Morrisey að trúa á Ameríkuna?

"But where the President
Is never black, female or gay
And until that day
You've got nothing to say to me
To help me believe
In America."
(America is not the world, af diskunum You are the Quarry)

Það er erfitt að fara beint úr 1. gír í 5. Eiginlega er það ógerningur! Kannski er það bara vegna þess að ég er löt, löt, löt og elska að sofa. Næsta vika verður tekin með trukki ehhhh.

Er í vinnu núna þessa vikuna, þar sem ég stend úti í götu og tek viðtöl við fólk sem er að leggja bílunum sínum. Það er verið að kanna viðhorf fólks til bílastæðaástandsins í miðborginni. Þetta er í rauninni fínt jobb, kalt en fínt. Ég fæ 100 d.kr. fyrir viðtal og í fyrradag gerði ég 7 viðtöl á einum klukkutíma - frekar fínt tímakaup myndi ég segja.

Blogg andinn er ekki til staðar - skrifa síðar.
Ást og unaður...yfir og út.

Tuesday, January 16, 2007

Regnjakkinn vs. Atli Euroson

Ég gerði Huldu-met í að pakka upp úr töskunum...er búin að því og ákvað að ryksuga í leiðinni. Ég hlýt að vera eitthvað veik!?!

Setti batterí í kínaköttinn sem Sólveig Ása gaf mér í jólagjöf. Hann á að boða gæfu í peningamálum, sem ég ætla rétt svo að vona að standist því ég missti mig aðeins í fríhöfninni í gær. Skellti mér á iPod og digital myndavél og eyddi 60.000 sisvona, en Atli Euroson ákvað til allrar hamingju að blæða. Fékk svo mikið kikk út úr þessum kaupum að ég gerði innkaupalista.

Næstu kaup verða:
plötuspilari,
harður diskur,
skrifborðsstóll
og hraðsuðuketill.

...ætli ég byrji samt ekki á hraðsuðukatlinum.

Fór í regnjakkanum mínum út áðan. Hér er grátt, hér er rigning, hér er regnjakkinn jafnvel enn betri vinur en Atli.

Takk fyrir ást og unað á Íslandi. Þetta var ljúf ferð.

Hulda.

Færsla skrifuð ca. 2.jan

Vandræði á blogger.com
Category: Blogging

Hér kemur bloggið sem átti að birtast fyrir löngu síðan á blogginu mínu, en blogger.com var ekki í stuði um jólin, né heldur um áramótin þannig að ég hef ekkert getað birt.

Nú er ég búin að vera á Akureyri city síðan 18.desember - er löngu hætt að geta fylgst með hvaða mánaðardagur er, hvað þá vikudagur. Dagarnir virðast einhvern veginn allir renna saman, ætli það sé ekki sökum óhóflegs legu á sófanum og í rúminu. Letilíf hefur einkennt þessi jól, letilíf, sem enn er næstum hálfur mánuður eftir af. HÁLFUR MÁNUÐUR! Ég er að verða komin með nóg af því að sofa út. Er búin að snúa sólarhringnum svooo mikið við, ligg meira að segja andvaka þegar ég fer að sofa klukkan 03:00, því 03:00 er einfaldlega of snemmt. Líkamsklukkan mín er heldur ekki að fíla "Huldu bjartsýnu" sem stillir vekjaraklukkuna á 10:30 - ónei klukkan 10:30 líður mér eins og klukkan sé 6 að morgni. Er farin að þrá einhverja rútínu, eitthvað að gera, eitthvað til að skrifa á to do listann minn...eða reyndar hef ég alveg eitthvað að setja á to do listann, en kem bara engu í verk. Letilíf ó letilíf hvað ertu að gera mér!

Dansgleðin hefur samt sjaldan setið á sér. Er búin að fara fjórum sinnum á skrallið, sem mér finnst nokkuð vel af sér vikið. En þegar maður fer á sömu staðina og hittir sama fólkið trekk í trekk þá finnur maður, að líklega er það tilbreytingarnar sem gefa lífinu lit. Er strax farin að hlakka til að kíkja á næturlífið í Reykjavík...

Akureyri er lítill bær, þó að hann sé "den største by ude på landet" eins og ég kýs að kalla það. Þegar ég, Kris piss og Sólin höfum ætlað að gera eitthvað hefur spurningin verið "jæja stelpur er það Karó í kvöld?", já eða ef maður er í skapi til að gera eitthvað villt þá er það "jæja bíó?". Gamalkunni möguleikinn "rúnturinn" er því miður (já eða ekki svo miður) dottinn út - einhvern veginn hefur löngunin í að keyra hring eftir hring eftir hring og eyða bensíni foreldranna minnkað með árunum.
Veit ekki hvort sé hægt að kenna stærð bæjarins um vöntun á möguleikum, kannski er þetta bara hugmyndaleysið, gamla góða "mamma mér leiðist". Smægð bæjarins hefur samt sína kosti líka (er diplómatísk að eðlisfari), því hvað er yndislegra en að vera boðið góðan daginn af fólki sem maður mætir á gangstéttinni, þekkja annanhvern mann sem maður mætir í bænum, hitta næstum alla úr gamla skólanum sínum bara við að taka eitt Karó-->Amour-->Kaffi Akureyri-rúnt, já eða þekkja strætóbílstjórann, sem stoppar beint fyrir utan heimilið þitt, svo þú þurfir ekki að labba þessa 200 metra frá strætóstoppinu að óþörfu.

Hefði kannski átt að rifja upp liðið ár, en nei þetta kom í staðinn. Er bara sátt við að hafa náð að æla út úr mér bloggi.

Gleðiliegt nýtt ár allir saman og takk fyrir gömlu góðu, megi þau verða fleiri og enn betri.

Hulda, sem strengdi ekki eitt einasta áramótaheit, en er samt með 1000 óformleg í kollinum. Árið 2007 hear I come!!!!