Monday, May 28, 2007

Fyrsta skrefið að virkara bloggi

Ég er sveitt,
úti er heitt,
ég er þreytt...

....og ég er með hælsæri eftir gullskóna.
...og Anna er að steikja eitthvað sem er pulsulykt af, sem eiginlega veldur smá ógleði hjá mér af því að ég er búin að borða (nei mamma ég er ekki ólétt!).

Þessi færsla er fyrsta skrefið í átt að nýja fleiri-en-eina-færslu-á-mánuði blogginu mínu. Ég ákvað svo að gefa henni smá neikvæðan undirtón svona til að halda tilfinningalegu "jafnvægi" hérna á síðunni (þið munið of mikið+of lítið), síðasta færsla var jú allt of jákvæð.

Adios amigos
Hulda

Wednesday, May 23, 2007

Afsakið biðina...

Mér líður eins og það sé ár og dagur síðan ég skrifaði hingað inn síðast. Það mætti halda að ég væri að reyna að hræða burt mína fáu, en mjög svo tryggu lesendur.

Margt hefur borið á daga mína síðan ég hripaði nokkur orð hérna inn síðast. Allt er alltaf að gerast og ég hreinlega veit ekki hvar ég á að byrja í öllu “góðar sögur” flóðinu. Náttúrulegast væri auðvitað að byrja á svo sem eins og einni hjólasögu...bara svona til að hita upp.

Rocky er enn að “standa fyrir sínu”. Hún þeysist um götur Kaupmannahafnar þrátt fyrir ryð og of lausa keðju sem dettur af “hist og her”. Það er auðvitað ekkert til að kippa sér upp við því handlagna Hulda reddar því á ‘no time' - ja ca svona 3 sinnum í hverjum hjólatúr. Olíusmurnir puttar (sem reyndar eru nær hættir að vera olíusmurnir af því að keðjan er svo ryðguð) heyra reyndar brátt sögunni til. Með blendnum tilfinningum tilkynni ég ykkur hér með að arftaki Rocky er fundinn! Fékk annan ryðdall í gjöf frá ljúfum dreng á djamminu um daginn. Alltaf gott að fá gjafir, en kannski minna gott þegar maður veit að þær eru teknar ófrjálsri hendi....en ég meina. Ég hef ákveðið að þar sem eigandinn mjög ólíklega mun fara á löggustöðina og leita að hjóli sem stóð ólæst og púnkterað, þá hef ég ákveðið að hjóla um á því um götur Kaupmannahafnar og líta svo á að ég hafi gert góðverk ef eigandi hjólsins finnur mig...og hjólið. Ég mun einfaldlega stíga af hjólinu rétta viðkomandi það og segja “ertu ekki þakklát/ur, ég lét lappa það”.
-----
Roskilde vinnan er komin á hreint. Troels, uppáhalds rafvirkjinn minn (fyrir utan Árna frænda auðvitað hehe), hringdi í mig í dag og tjáði mér það að búið væri að skrifa mig á vaktir 2., 3. og 4. júlí. Við erum fjórar stelpur á vakt í einu ég, Anna, Selma og Ida. Hann sagði að það væru svona margir á vakt í ár til þess að við réðum við þetta og hefðum líka tíma til að hafa það huggulegt....með öðrum orðum, það verður ekkert að gera heldur nægur tími til að spila rommy og drekka frían bjór. Þetta er vinna að mínu tagi.
-----
Svo ber kannski hæst í fréttum það að ég er að koma til Íslands á næstu önn. Ákvað bara að breyta smá til og gera eitthvað villllllt....ég er jú svo villt, svo villt. Eftir miklar e-mail sendingar fram og til baka, ferðir á alþjóðaskrifstofuna í skólanum og bara almennt tuð, þá hef ég fengið leyfi til að fara sem skiptinemi til míns eigin heimalands (á ekki að vera hægt, heldur á maður bara að geta farið sem free mover s.s. alveg á eigin vegum) Ég beitti reyndar mörgum bröllum, hvolpaaugun voru notuð, tölfræði fékk að fljóta með, sálfræðin var nýtt og gríðarlega góða samskiptakunnáttan stóð fyrir sínu. Þetta þýðir það að ég þarf ekki að borga önninu sjálf, auk þess sem ég held að ég fái kannski Erasmus. Svo ætlar Sigríður (hjá alþjóðaskrifstofu HR) að hjálpa mér að finna húsnæði. Já kæra fólk...ég er í skýjunum.
------
Ingibjörg og Kristjana voru hérna svo í nokkra daga. Það var nú ljúft að sjá píurnar, en pínu pirrandi að þurfa að skólast og nördast og geta ekki bara verið að túristast eins og mig langaði mest af öllu. Litla hafmeyjan varð því miður að bíða að sinni, hef ekki séð greyið í 15 ár. En tíminn sem við menntaskólagærurnar náðum saman var quality-time eins og hans gerist bestur! Takk fyrir að vera svona yndislegar.
-----
Birgitte, mamman í au-pair fjölskyldunni minni, hafði svo samband við mig í gær. Hún vildi heyra hvort ég gæti komið og passað eitthvað í júní, sem ég og get....víííhúú. Allt lítur út fyrir það núna að ég fari til suður-Frakklands (á gamlar heimaslóðir;) frá 5.-16.júní s.s. í millitímanum frá því að ég skila stóra Carlsberg prófverkefninu og þangað til ég fer í próf úr því 22. Það væri fullkomið að komast aðeins niður í sól og sumar og njóta lífsins og passa tvo gullklumpa.
-----
...svo skín sólin í Kaupmannahöfn og það er ótrúlegt hvað það getur gert mig hamingjusama að hjóla í skólann með sólgleraugu á nefinu og vind í hárinu – jafnvel þó að ég sitji inni í 9 tíma á dag.

Sjáiði mynstrið í færslunni - lífið bókstaflega leikur við mig þessa dagana.
Ég vil þess vegna nota tækifærið og þakka guði!

Hulda - sem skrifar ofur hamingjusamar færslur

Thursday, May 03, 2007

Táragas og bolafar

Grámyglan, sem var með smá dash af grænu og bláu virðist smátt og smátt vera að hverfa af andliti mínu eftir fleiri mánaðar dvöl. Sólin skín og ég er með rauðar kinnar og 2 bolaför, ofsalega smart.

Prófið gekk glimrandi - og á eftir var skálað....og um helgina var skálað. Ég skellti mér til Krabbesholm í heimsókn til Jóns Inga og því sé ég sko ekki eftir. Ótrúlega indæll náungi þessi bróðir sem ég á.

Eftir að sólin fór að láta sjá sig, finn ég að mig langar bara að sitja á teppi í einhverjum garði með kaldan bjór í hendi - en það gengur líklega ekki því við erum byrjuð á 2. árs verkefnunum. 60 síðna dæmi og skil 4.júní. Reyndar get ég séð það sem smá sárabót að við völdum Carlsberg sem case fyrir verkefnið. Don't drink it, write it!

1.maí var haldin hátíðlegur hér í bæ í Fælledparken. Ég skellti mér þangað ásamt góðu gengi og sat á teppi, með bjór í hendi (hehe endar með því að færslan snúist bara um bjórdrykkju) og naut þess að vera til - hlustaði á ræður, hlustaði á tónlist og horfði á allar þær skemmtilegu týpur sem fylltu þennan risastóra garð hérna mitt í Köben. Anders Fogh og hans ríkistjórn fengu heldur betur að heyra það, enda þeir 12 mánuðir sem liðnir eru frá síðasta 1.maí búnir að vera afspyrnu hræðilegir þegar kemur að ýmsum pólitískum baráttumálum vinstrisinna. Garðurinn var fullur af vinum Ungdomshússins og Christianíu og stemmingin var góð, enda sólskin og blíða og gott fólk samankomið. Ég þurfti því miður að yfirgefa svæðið alltof fljótt, vinnan á sambýlinu beið mín. Á leiðinni heim 8 klukkutímum síðar hjólaði ég fram hjá Fælledparken og áttaði mig á því að góða stemmingin hefði kannski ekki varað allt kvöldið. Reykmökkurinn sem ég hjólaði í gegnum var eins og eftir þrefalt gamlárskvöld. Ég frétti svo af því daginn eftir að löggan hefði verið kastandi táragasi hægri vinstri (alsaklaus vinkona mín lenti meðal annars í því að þurfa að hlaupa í gegnum táragas), bál höfðu verið kveikt, veggir verið spreyjaðir og einhverjir handteknir. Þessir atburðir eru líklega eitthvað sem maður á Nørrebro bara myndi kalla "æji þetta venjulega".

Eigið góðan dag, lausan við táragas og múrsteinakast
Hulda

p.s. það er von á myndabloggi á næstu dögum m.a. frá Krabbesholm.