Ég hef labbað um íbúðina og hef ekki fundið net hvorki á klósettinu, eldhúsinu, ganginum, herberginu hennar Önnu né í mínu herbergi. Ég meina ’kommon’ gimmí somm internet, hversu erfitt getur það verið!
Ég og Anna fundum góðan granna þegar við fluttum inn. Hann hét Usher. Einhverra hluta vegna ákvað hann að slíta vinasambandinu í gær og troða lykilorði á netið hjá sér. Ég meina til hvers! Hallllló. Greinilegt að hin börn kapítalistaþjóðfélagsins hafa talað hann til sín. Belkin54 var líka stundum vinur okkar...hann var ekki svo stabíll, en góður þegar hann vildi. Hann hefur ekki látið sjá sig í nokkra daga, veit ekki hvað hefur komið upp á. Og þetta kallar maður nágranna sína.
Ég er að spá í að fara á milli íbúða hérna í uppganginum hjá okkur, með bolla í hendinni og stað þess að spyrja ”má ég fá lánaðan bolla af sykri?” að spyrja þá ”má ég fá lánaðan kóðann af internetinu hjá þér?”.
Reyndar sér vonandi fyrir internetleysinu, er búin að senda einhverja pappíra en er bara að bíða. Sit núna heima og skrifa þessa færslu í word, töff.
Það vantar reyndar hitt og þetta á heimili okkar. Anna er að keyra töfrasprotann (Anna er magísk en þetta er samt sem áður eldhúsgræja) sinn út með því að gera fleiri fleiri smoothia á viku með frosnum jarðaberjum og tilheyrandi. Sprotinn sárkvelst í hvert skipti og biður um að við köllum á vin hans blenderinn. Hugsa kannski að við förum að fjárfesta í sjóleiðis.
Brauðrist er önnur lífsnauðslynleg eldhúsgræja sem okkur sárvantar. Ég kom sársvöng heim úr skólanum áðan og langaði í bollu sem ég hafði bakað....og mig langaði í hana ristaða.

Ég dó ekki ráðalaus – hugsaði fyrir það fyrsta að það væri bruðl að fara að kveikja á ofninum til að hita eina bollu þannig að ég (snjalla) Hulda ákað að rista bolluna yfir gasi á eldavélinni. Ég get sagt ykkur að ég uppskar ÆÐISLEGA LJÚFFENGA RISTAÐA bollu, en sit núna með hendina í vatni milli þess sem ég pikka, því brunasárin urðu tvö. Ég veit pabbi – ég er ljóshærð!
Ég kveð að sinni
Arídú arídúradei