Tuesday, February 12, 2008

GET LOST

Önnur sýninganna sem ég er með í að skipuleggja á DAC heitir GET LOST. Hún snýst um "social bæredygtighed", sem gæti þýðst yfir á íslensku sem félagsleg burðargeta.

Hvernig skipuleggjum við nútíma stórborgir, fyrir hverja og út frá hvaða gildum?
Að skipuleggja borg sem rúmar alla er meira en að segja það.
Hvernig býr maður til garð þar sem rónarnir geta eytt löngum stundum án þess að það hræði burt barnafjölskyldurnar?
Hvernig byggir maður upp hverfi með félagslegum íbúðum án þess að það endi með að verða ghetto?
Hvernig stuðlar maður að borg med margbreytilegu mannlífi, með fátækum, ríkum, útlendingum, barnafjölskyldum, einhleypum, öldruðum - öllum á sama stað?

Oft virðist "marginalisation" (útskúfun á íslensku?) eiga sér stað í stórborgum, þ.e. minnihlutahópum er ýtt burt frá miðju samfélagsins. Félagslegu íbúðirnar eru settar í útjaðar borgarinnar, gamla fólkið gleymist og fær að vera einmana í friði, skýli fyrir heimilislausa þurfa helst að vera í verksmiðjuhverfum því æsingur verður sjaldan meiri og undirskriftalistar sjaldan lengri en þegar sögur fara á kreik um að opna eigi athvarf fyrir heimilislausa í íbúðahverfi.

Mér finnst mjög áhugavert ad velta þessu fyrir mér. Hér sit ég á Amager sem hefur ekki beint besta orðsporið, en af hverju er það svo? Af hverju er Amager "ófínna" en t.d. Vesterbro? Göturnar eru sópaðar jafn oft og húsin eru jafn vel byggð.

Eiginlega vildi ég ekkert með þessu bloggi, ekki annað en kannski að vekja ykkur, lesendur góðir til umhugsunar. Ég hef engar lausnir á öllum þessum vandamálum sem borgarskipulagsmenn þurfa að glíma við, og eitt er víst, þeir hafa þær ekki heldur.

Lifið heil,
Hulda

1 comment:

Sæja said...

Segi það sama hef ekki hugmynd um það hvernig best er að skipuleggja svona en samt áhugaverð pæling. Öfunda ekki skipulagsfulltrúa í starfi sínu.