Thursday, July 27, 2006

Í kapphlaup við batteríið

Ég er að skrifa þessa færslu með hellur í eyrunum, tár í augunum, skólaus, spennt í belti og er í orðsins fyllstu í skýjunum...eða reyndar fyrir ofan þau. Þvílíkt útsýni sem var þegar vélin var komin á loft og flaug út Eyjafjörð. Útsýnið gerði það að verkum að ég klökknaði (og geri að sjálfsögðu líka þegar ég skrifa þetta) og velti því fyrir mér hvað ég væri að hugsa að yfirgefa svona fallegt land og þessa fallegu fjölskyldu og vini. (Bókin sem ég er að lesa er búin að koma mér í sérstaklega viðkvæmt ástand...úff maður ég ræð ekkert við þessi tár.) En jæja Kaupmannahöfn á eftir að taka vel á móti mér aftur, heyrði að það væri spáð grenjandi rigningu og allt! Nei ég trúi nú ekki að ég hafi alveg misst af hitabylgjunni...ágústmánuður hlýtur að verða góður.
Íslandsferðin var frábær, en “times flies when you´re having fun” og þess vegna má segja að hún hafi verið alltof stutt líka. Hitti mikið af góðu fólki, suma auðvitað alltof stutt og aðra jafnvel ekki neitt, en næst....næst ætla ég að ná öllu.
Allt þetta praktíska sem ég ætlaði að gera í þessari ferð – fara til tannlæknis, tala við bankann o.s.frv. var óvart sett svo aftarlega á forgangslistann að ég hreinlega náði því ekki...eða kannski réttilegra nennti því ekki. Það er gott að það finnist líka tannlæknar í Danmörku svo ekki sé talað um internet og heimabanki.
Ég brasaði ýmislegt á Íslandinu góða, stoppaði stutt í Reykjavíkinni. Jússurnar mínar voru allar svo uppteknar að ég ákvað bara að láta mig hverfa úr borg óttans eftir sólarhringsstopp, enda var mamman líka farin að vilja fá dóttur sína norður yfir heiðar. Sólarhringurinn í Reykjavík hefði samt ekki getað verið betri, góður félagsskapur, góður matur, gott nammi og gott sjónvarpsefni – næs.
Æji hvað það var svo gott að koma í Aðalstrætið. Það er svo skrítið að í hvert skipti sem ég kem “heim heim” (eins og ég kýs að kalla það eftir skilgreiningarerfiðleikana með orðið) finnst mér eins og ég hafi verið þar í gær. "Heima heima" er best! Skrallið á Akureyri var svo róóóósalegt...jiiii hvað var gaman. Dagarnir liðu svo í einhverju hálfgerðu móki og allt í einu var komið að ættarmótinu. Þessi ætt brást ekki frekar en fyrri daginn og endalaus skemmtun átti sér stað þá helgi...hressandi sjóbað (vatnið um 7°gráður), fullt af ungabörnum (með tilheyrandi eggjastoggahringli), afmæli Nóa frænda (rauðvín og ostar), ball (dansi dans með fullt af börnum), góður matur (mmmm), Hafnarbarinn (segi ekki meir), sólskin (svaf þynnkuna úr mér úti á palli) og svo margt fleira. Akureyrin tók svo við aftur og við tók flakk á milli Kaffi Karólínu með Sólveigu, ömmu og A-17, að undantekinni hvalaskoðuninni með pabba, Johannes Møllehave og kærustunni hans. Það er um að gera að fara í hvalaskoðun eins oft og maður getur á ævinni, 4 skiptið hjá mér. Veit fátt betra en að túristast með túristum...þeir eru oft svo hrifnir að landinu okkar að maður hrífst hreinlega bara með – þó að maður hafi kannski séð staðinn oft áður.
Dagarnir liðu of hratt en það kann að gerast þegar maður sefur fram undir hádegi. En brunchinn hjá mömmu klikkar ekki, hvergi fær maður café au lait með meiri sál (eða þið vitið) en “heima heima”.
Það verður skrítið að koma heim í draslaralegt herbergið, tóman ísskápinn og missa af “Supernova” – en í staðinn ætla ég að fara á ströndina því “life is a beach” eins og þið kannski munið.

Hafið það gott ljúfurnar og takk fyrir allar góðu samverustundirnar á Íslandinu bezta....
ást Hulda

p.s. ég var á undan batteríinu nú eru 7% eftir...svona er þetta að vera fljótur að pikka.

4 comments:

Anonymous said...

Elsku gullið mitt.
Ég fékk tár í augun við að lesa þetta. Vildi að þú hefðir haft tök á að vera lengur. Sakna þín og elska þig.
Sigur Rós var frábær í gærkvöldi. Við fórum öll og gæti ég trúað að kúrilúri hafi verið yngsti "áheyrandi". Fólk var á öllum aldri og fín stemning.
Kossar frá öllum. Litla fjölskyldan fer suður í dag.
Knús
Mútta gamla

Anonymous said...

hæ Hulda mín og já, það er satt, þetta var allt of stutt stopp hjá þér. ég hlakka mikið mikið til að koma til þín eftir mánuð vííííí
ég var úti að skokka í morgun og kom aðeins við í A-17. Sá það var opið og mamma þín og Máni Mar voru að elda sér hafragraut. Það var æðisleg

elska þig og sé þig eftir smá

Anonymous said...

Æji hjartað mitt, hvað það var nú gott að sjá þig aðeins og kíkka á galeiðuna á Akureyri, þrátt fyrir að hafa fests svona agalega í samræðum við vissan aðila;) En þú ert flottust elskan, vona að ég sjái þig sem allra allra fyrst aftur, maður verður nú að fara að kíkja til Kaupmannahafnar í fyrsta skiptið! Elska þig:*

Anonymous said...

hæhæ
það var nú gaman að fá að sjá þig hérna á Íslandinu.