”Hulda ætlaru ekki að fara að blogga” heyrðist í Önnu í morgun. Henni fannst liðið of langt síðan ég bloggaði síðast, auk þess fór yfirskriftin ”Andi með rass í bala” afskaplega í taugarnar á henni. Gæti ekki verið meira sammála henni...
Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa út smásögusafnið ”Hjólasögur frá Köben”.
Veit ekki hvort þið munið eftir öllum hjólasögunum sem birst hafa á þessu bloggi, en þær eru orðnar all margar – og ég er enn að safna í sarpinn.
Hjólið mitt sat fast í 2 gír um daginn. 2. gír er mjög léttur gír og Danmörk er mjög flatt land. Þegar ég var að taka af stað á ljósum hentaði gírinn rosa vel, en annars voru hjólatúrarnir bara eins og villtir spinning tímar. Fólki virtist samt líka vel við mig svona – sá allavega nokkra glotta útí annað þegar ég hjólaði fram hjá. Skilekkiakkuru!
Þegar ég var orðin leið á spinningástandinu kíkti ég við hjá hjólasmiðnum í götunni. Hann tjáði mér að hjólið mitt ætti heima á haugunum (ha í alvöru á ryðhaugurinn minn heima á ruslahaugunum!) og að það myndi ekki borga sig að gera við það. Þegar ég hjólaði frá honum gerðist svo undur og kraftaverk. Hjólið hafði greinilega tekið þessu sem móðgun og ákvað að festast í þyngsta gírnum í staðinn. Já herrar mínir og frúr það er sko bara annað hvort eða hjá miss Roxy. Spinningástandið ríður sem sagt ennþá rækjum...að taka af stað á ljósum er vandamálið núna.

Keðjan á miss Roxy finnst hún heldur ekki eiga alveg heima þar sem hún á að vera. Olíuputtar eru þess vegna nær orðnir hluti af mér. Hvað segiði er nýtt hjól málið?
Úr einu í annað...
Man ekki hvort ég var búin að segja ykkur frá thai-stelpu-afmælis-matarboðinu sem ég hélt um þar síðustu helgi. Er búin að vera á thai matarnámskeiði og ákvað að sína snilli mína og hafa margréttað thai matarboð. Ég bauð 12 stelpum sem áttu að koma klukkan 19 á laugardegi. Það var mikið að gera í skólanum vikuna áður, þannig að frítíminn fór í að skipuleggja matseldina og versla galangarót, svart chilly pasta, sítrónugras og þar frameftir götunum. Ísskápurinn hjá okkur hefur aldrei verið svona fullur.

Á föstudeginum setti ég kjúkling og nautakjöt í marineringu og undirbjó það sem hægt var. Laugardagurinn fór að einhverju leyti í tiltekt og annað stúss og um 16 leytið ákvaðum ég og Anna að skella okkur út í búð og kaupa það síðasta sem vantaði...aðallega vín. Anna skellir hurðinni á eftir sér og svo kemur einhvað skrítið bros á hana – ég spyr hana af hverju hún sé að glotta svona og þá spyr hún mig tilbaka ”ertu með húslykla?”....aaaaaaaaaaaaaaaaa ég held að ég hafi sjaldan á ævi minni orðið svona stressuð. Nóbb engir lyklar...ENGIR LYKLAR og stelpurnar væntanlegar. Ég hefði verið til í að læsa mig úti alla aðra daga en þennan – þetta var of týpískt ég.
Þetta reddaðist samt allt saman – en í staðinn urðum við systur 7000 kr. fátækari. Held að maður gæti verið með ágætis tímakaup sem lásasmiður!
Vel heppnað matarboð varð þetta þó...


Jæja bakk tú biss – læra, læra, læra.
Hulda